Innlent

Sverðaglamur og stríðsöskur í Hafnarfirði

Sverðaglamur og stríðsöskur berast nú frá Strandgötunni í Hafnarfirði þar sem Víkingahátíðin á Fjörukránni fer nú fram.

Sólstöðuhátíð víkinga í Hafnarfirði er nú haldin í tíunda sinn og er orðin að árlegum viðburði hjá eigendum Fjörukráarinnar. Þar nútímavíkingar, innlendir sem erlendir, haldið sig um helgina og prangað með vörur sínar. Þar er um að bæði handverk eins og hringa og galdrastafi og einnig vopn sem notuð eru á völlum sem menn höfðu haslað sér.

Þegar fréttastofu NFS bar að garði voru félagar í víkingahópunum Rimmugýgi og Jómsvíkingar að búa sig til orrustu og ljóst var að barist yrði til síðasta manns og að lokum stóð aðeins einn uppi, jarlinn Hafsteinn Pétursson. Hann hefur verið með Víkingabakteríuna í um tíu ár og segist hafa heillast þegar hann hafi séð fyrsta bardagann. Aðspurður hvort dýrt sé að verða sér úti um víkingabúnað segir Hafsteinn að svo sé en menn geti einnig saumað sjálfir klæðin og smíðað vopnin.

En víkingamenningarinnar var ekki einungis minnst með vígum því á hátíðinni var gefið saman par að heiðnum sið.

Steinn Ármann Magnússon leikari hefur staðið á vaktinni um helgina og kynnt dagskrána. Hann er sjálfur forfallinn víkingur. Hann segir að þetta hafi byrjað með kaupum á smáhlutum og svo hafi þetta hlaðið utan á sig. Þetta sé ævintýraheimur sem menn sæki í.

Hlé verður gert á hátíðinni í kvöld og farið með hana norður á Sauðárkrók í vikunni. Hins vegar koma víkingar saman aftur á föstudaginn kemur í Hafnarfirði og skemmta sér og öðrum um næstu helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×