Innlent

Skriðuhætta ekki enn liðin hjá

MYND/Vísir

Talið er að skriðuhætta sé ekki enn liðin hjá í innanverðum Eyjafirði og þá sérstaklega við bæinn Grænuhlíð. Í ljósi þess er lagt til að fólk hafist ekki við á þeim bæjum sem í mestri hættu eru taldir, það er á svæðinu frá Æsustöðum að Arnarfelli, að báðum bæjum meðtöldum.

Ástæður þessara skriðufalla eru þær að mikið hefur snjóað í fjöll í haust, en síðustu dægur hefur snögghlánað og auk þess hefur úrhelli verið mikið. Þetta leysingarvatn hefur streymt niður í jarðveg og gert hann gegnsósa. Fari veður kólnandi minnkar skriðuhættan og líður væntanlega hjá á einum til tveimur sólahringum.

Þótt hætta af skriðuföllum sé talin mest á fyrrnefndu svæði gætu skriður fallið úr fjallinu vestan ár, en þar eru íbúðar- og gripahús ekki talin í hættu. Skriður gætu engu að síður fallið á þjóðveginn þar og eru vegfarendur hvattir til að vera þar ekki mikið á ferð og gæta fyllstu varúðar.

Eyjafjarðarbraut vestri er enn lokuð við Djúpadalsá þar sem vegurinn er rofinn báðum megin brúarinnar. Stefnt er að því að ljúka viðgerðum sem fyrst en ljóst er að þær munu taka einhverja daga. Verið er að hreinsa aur og bleytu af veginum við Grænuhlíð og norðan Kolgrímastaða og teljast þær leiðir nú færar. Vegfarendum er þó bent á að fara með gát eins og áður er nefnt. Þá er unnið að viðgerð á veginum að Völlum en hann hefur skolast frá brúnni svo hún er ófær."

Almannavarnarnefnd Eyjafjarðar mun fara yfir málið á fundi kl. 18:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×