Björgunarsveitir víða um land hafa verið ansi uppteknar í kvöld en veðurofsinn hefur verið mikill. Þakplötur hafa víða tekist á loft sem og fótboltamörk í Vík í Mýrdal. Björgunarsveitin á Akranesi er enn með vakt við höfnina en smábátar hafa losnað upp en þá tókst þó að festa aftur.
Á Akranesi losnaði líka járn af Síldarbræðslunni og tókst að festa það áður en tjón hlaust af.
Flugbjörgunarsveitin á Hellu var kölluð út til að festa þakplötur og hurð sem voru að losna af gamalli hlöðu.
Í Vík í Mýrdal fuku fjögur fótboltamörk, sem bundin voru saman, af stað. Björgunarsveitin Víkverji aðstoðaði starfsmann áhaldahúss við að koma böndum á mörkum til að koma í veg fyrir að tjón hlytist af.