Innlent

Karlmenn um þriðjungi fleiri

Starfandi erlendir ríkisborgarar á Íslandi voru 9.010 í fyrra eða 5,5 prósent af heildarfjölda starfandi sem er aukning um 3,2 prósent frá árinu 1998 samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands.

Árið 1998 voru 1.870 konur með erlent ríkisfang starfandi á móti 1.530 körlum. Hlutföllin hafa síðan snúist við og voru karlar 5.350 í fyrra á móti 3.650 konum starfandi eða um þriðjungi fleiri.

Í fyrra störfuðu 4.420 erlendir ríkisborgarar á höfuðborgarsvæðinu en 4.340 utan þess. Utan höfuðborgarsvæðisins störfuðu flestir erlendir ríkisborgarar á Austurlandi eða 1.790.

Af öllum starfandi árið 2005 störfuðu flestir við þjónstugreinar eða 72 prósent og næstflestir við iðngreinar eða 23 prósent. Fæstir starfa við frumvinnslugreinar eða aðeins fimm prósent.

Innan iðngreinanna starfa flestir erlendir ríkisborgarar við mannvirkjagerð eða 1.890 og hafði þeim fjölgað um 1.770 frá árinu 1998. Flestir voru þeir á Austurlandi eða 1.170.

Árið 2005 voru flestir starfandi erlendir ríkisborgarar pólskir eða 1.970. Næst á eftir koma ríkisborgarar frá Danmörku, Filipps­eyjum, Portúgal og Þýskalandi eða 500 frá hverju landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×