Lífið

Aukatónleikar sunnudaginn 24.september

Vegna gríðarlegrar eftirspurnar, fjölda áskorana og ótrúlegrar pressu hefur verið ákveðið að bæta við aukatónleikum með Björgvini Halldórssyni og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eins og kunnugt er seldust fyrri tónleikarnir upp á mettíma fyrir skömmu, þegar tæplega 3000 miðar ruku út á aðeins 90 mínútum.

Augljóslega sat gríðarlega stór hópur fólks þá eftir með sárt ennið og síðan þá hafa dunið á okkur fyrispurnirnar sem aldrei fyrr varðandi fleiri miða og aukatónleika.

Þar sem um risavaxin atburð er að ræða og um 200 manns sem koma að tónleikunum hefur það tekið sinn tíma að láta aukatónleikana verða að veruleika. Það er því sérstakt ánægjuefni að geta staðfest þá hér með.

Aukatónleikarnir munu fara fram sunnudaginn 24. september kl. 20:00, daginn eftir fyrri tónleikana. Sem fyrr verður aðeins selt í númeruð sæti og hefur Laugardalshöll verið skipt upp í tvö verðsvæði:

Salur: 7.500 + miðagjald

Stúka: 6.500 + miðagjald

Miðasalan hefst föstudaginn 15. september, kl. 10:00 á öllum sölustöðum.

Miðasalan fer fram á midi.is, í verslunum Skífunnar og verslunum BT á Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi.

Í ljósi þeirrar miklu spennu sem hefur myndast fyrir þessum einstaka tónlistarviðburði og hversu hratt miðarnir ruku út síðast, þarf varla að hafa mörg orð um mikilvægi þess að áhugasamir hafi hraðar hendur og tryggi sér miða strax. Að gefnu tilefni skal það tekið skýrt fram að ekki er fræðilegur möguleiki á því að bæta við fleiri tónleikum; þegar miðasala hefst í næstu viku er sannarlega um allra síðasta tækifæri fyrir fólk til að tryggja sér aðgang að einum stærsta og glæsilegasta atburði sem haldin hefur verið hérlendis.

Bakhjarlar tónleikanna eru Alcan í Straumsvík í tilefni af 40 ára afmæli ISAL og Bylgjan - brautryðjandi í 20 ár.

Nánari upplýsingar á www.bravo.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×