Innlent

Þrír hafa slasast alvarlega í eldsvoðum að undanförnu

Þrír hafa slasast alvarlega og liggja enn á gjörgæsludeildum, og fjórir hafa sloppið naumlega úr fjórum eldsvoðum í heimahúsum á þremur sólarhringum.

Þessi hrina eldsvoða hófst á Húsavík á sunnudagskvöldið þar sem íbúðarhús eyðilagðist í eldi eftir að ofbeldismaður hafði gert tilraun til manndráps í húsinu. Konan, sem maðurinn stakk með hnífi og brenndist síðan alvarlega, er enn á gjörgæsludeild Fjóðrungssjúkrahússins á Akureyri, en annar maður, sem líka varð fyrir hnífsstungu, slapp naumlega út úr brennandi húsinu. Eldsupptök eru enn óljós, en mestur eldur virðist hafa logað í stofunni.

Síðan kviknaði í út frá potti á eldavél í mannlausri íbúð í fjölbýlishúsi á Akureyri síðdegis á mánudag og í fyrrakvöld slapp kona og tvö börn hennar á síðustu stundu út úr íbúð þeirra í Keflavík en þar var mikið eldhaf þegar slökkvilið kom á vettvang. Þar virðist eldurinn hafa kviknað í barnaherbergi, en nánari tildrög liggja ekki enn fyrir nema hvað rafmagn er útilokað sem orsakavaldur.

Loks varð svo mikill bruni í íbúð í fjölbýlishúsi við Ferjubakka í Reykjavík í gærkvöldi, eins og greint var frá hér áðan, og liggja karl og kona á milli heims og helju á gjörgæsludeild eftir hann. Þar virðist mestur eldur hafa logað í stofu og anddyri. Þar eru eldsupptök líka óljós, enn sem komið er , en rannsókn stendur yfir í öllum tilvikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×