Stigahæsti kylfingur heims, Tiger Woods, var heldur betur í stuði í gær á meistaramótinu í holukeppni sem fram fer í San Diego í Kaliforníu. Woods burstaði Stephen Ames með sögulegum mun þegar hann vann fyrstu níu holurnar og tryggði sér að lokum sigur eftir að jafnt varð á þeirri tíundu.
"Ég fann strax að ég var að slá mjög vel rétt eins og á æfingunni fyrir leikinn og í svona keppni reynir maður að setja eins mikla pressu á andstæðinginn og maður getur strax í upphafi og það tókst fullkomlega í þetta sinn," sagði Woods. Þeir Vijay Singh og Retief Goosen komust einnig áfram á mótinu, en þurftu þó að hafa öllu meira fyrir því en Woods.