Innlent

Listaverkin geta notið sín innan RÚV

Páll Magnússon
Páll Magnússon

Ólafur Kvaran, forstöðumaður Listasafns Íslands, segir listaverkin Sumardagur í sveit og tvö verk er tilheyra seríu sem nefnist Sjávarútvegur, eftir Gunnlaug Scheving, geta notið sín innan veggja Ríkisútvarpsins. Í Fréttablaðinu í vikunni var greint frá því að Hilmar Einarsson, forvörður í Morkinskinnu, hefði metið verk Gunnlaugs á rúmlega 40 milljónir króna. Samtals eru listaverk í eigu RÚV metin á 52 milljónir króna.

Í samtali við Fréttablaðið sagði Hilmar skynsamlegast að koma verkunum fyrir á safni, og þá helst á Listasafni Íslands, en þau hanga uppi á veggjum í höfuðstöðvum RÚV við Efstaleiti, meðal annars fyrir utan förðunarherbergi í húsinu.

Ólafur segir mikilvægt að umgengni um verkin sé í samræmi við verðmæti og gildi verkanna. „Með hliðsjón af listrænu gildi verkanna eiga þau tvímælalaust heima í Listasafni Íslands. Aftur á móti skil ég vel það sjónarmið útvarpsstjóra að verkin séu hluti af mikilvægri menningarlegri ásýnd RÚV. En það er eðlilegt fyrir stofnanir að leita til Listasafn Íslands eftir ráðgjöf um forvörslu og meðferð listaverka, ef fyrir því er áhugi.“

Páll Magnússon útvarpsstjóri greindi frá því í Fréttablaðinu í gær að hann teldi óþarft að koma verkunum fyrir á safni þar sem þau gæfu RÚV menningarlega ásjónu sem mikilvægt væri að halda í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×