Breska leikskáldið Peter Morgan gerir það gott þessa dagana. Handrit hans að kvikmyndinni The Queen fellur í kramið hjá flestum sem sjá þessa ágætu mynd.
Leikrit hans, Frost/Nixon, á Donmar-leikhúsinu í London gengur vel og flyst á Broadway þegar sýningum í London lýkur og er uppselt á allar sýningarnar. Ron Howard er búinn að kaupa kvikmyndaréttinn.
Þann 26. október verður kvikmynd hans, Lord Longford, á dagskrá á sjónvarpsstöðinni Channel 4 en hún rekur samband Myru Hindley, morðkvendisins alræmda við hinn þekkta mannvin og lávarð. Fer Samantha Marrow með hlutverk Myru sem var hataðasta konan á Bretlandseyjum á síðustu öld. Þá á Morgan handritið að kvikmyndinni Last King of Scotland sem verður opnunarmynd á kvikmyndahátíðinni í London 21. október.
Athygli vekur að flest viðfangsefni sækir Morgan til fólks sem er enn á lífi eða nýlátið, sögulegra tíðinda í ekki svo fjarlægri fortíð. Það komast menn upp með í öðrum löndum.