Áhugi manna á fjölmiðlafyrirtækjum virðist vera endalaus og sá áhugi endurspeglast í endalausum sögusögnum sem fljúga um markaðinn. Nú gengur fjöllunum hærra að hlutur Kristins Björnssonar og skyldmenna í Árvakri sé til sölu og FL Group muni kaupa hlutinn.
Enginn fæst til að staðfesta slíkan orðróm og er hann því ekki seldur dýrar en hann er keyptur. Sama gildir um þrálátan orðróm þess efnis að Grettir, sem er undir stjórn Björgólfsfeðga, eigi stóran hlut í Ári og Degi sem á helmingshlut í Blaðinu á móti Árvakri. Menn geta andað rólega því flestum er ljóst að almennt séð eru menn meðvitaðir um mikilvægi þess að það sé engum fjölmiðlum hollt að leynd hvíli yfir eignarhaldinu.