Innlent

Íslenska ríkið sýknað af skaðabótakröfu

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. MYND/Valgarður Gíslason

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið af skaðabóta- og miskabótakröfu manns á fimmtugsaldri sem taldi sig hafa orðið fyrir tjóni þegar hann var, gegn vilja sínum, fluttur hingað til lands frá Danmörku til að afplána á Íslandi eftirstöðvar refsidóms sem hann hlaut í Danmörku.

Maðurinn var handtekinn í Kaupmannahöfn í október 2003 vegna gruns um refsiverða háttsemi. Hann var síðan dæmdur í 2 ára fangelsi og gert að yfirgefa Danmörku að afplánun lokinn og honum bannað að koma aftur til Danmerkur næstu 10 ár á eftir. Dómnum var ekki áfrýjað.

Í dómi segir að maðurinn hafi aðlagast aðstæðum og unað sér vel. Hann var ítrekað spurður hvort hann vildi ekki frekar afplána á Íslandi en neitaði því. Maðurinn er sagður eiga við geðræn vandamál að stríða og allar breytingar á aðstæðum honum sérstaklega erfiðar.

Í apríl 2004 sendi lögreglan í Kaupmannahöfn bréf til íslenska dómsmálaráðuneytisins þar sem beið var um flutning mannsins frá Danmörku til afplánunar á Íslandi. Ráðuneytið féllst á það þrátt fyrir að maðurinn óskaði ekki eftir flutningi.

Dómur fellst ekki á að farið hafi verið þvert gegn fyrirmælum laga varðandi flutning mannsins til Íslands. Hann hafi auk þess ekki sýnt fram á bótaskyldu íslenska ríkisins, hvorki samkvæmt almennum skaðabótareglum eða skaðabótalögum. Því hafi íslenska ríkið verið sýknað í málinu.



Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×