Innlent

Flugumferðarstjóri þvingaður til vinnu veikur

MYND/Heiða Helgadóttir

Flugumferðarstjóri á Reykjavíkurflugvelli, sem tilkynnti sig veikan í gærmorgun, var úrskurðaður vinnufær af trúnaðarlækni og í framhaldinu sagt að mæta til vinnu. Formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra segir atburðinn fáheyrðan og stórhættulegan.

Að sögn Lofts Jóhannssonar, formanns Félags íslenskra flugumferðarstjóra, hringdi starfsmaðurinn sig inn veikan um hálf tíu, klukkutíma áður en vaktin átti að hefjast, tók svo inn verkjalyf og lagði sig. Stuttu síðar hringdi trúnaðarlæknir fyrirtækisins í hann og boðaði hann á stofuna til sín í skoðun. Þegar maðurinn kvaðst ekki treysta sér til þess kom trúnaðarlæknirinn heim til hans, skoðaði hann og úrskurðaði hann vinnufæran. Síðan hafi maðurinn verið þvingaður til vinnu þrátt fyrir mótmæli sín.

Upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar Íslands segir ekki rétt að tala um þvingun í þessu sambandi. Leyfilegt sé að biðja trúnaðarlækna um að skoða starfsmenn og trúnaðarlæknir hafi úrskurðað manninn vinnufæran. Maðurinn hafi leitað annars álits, sérstaklega í ljósi þess að hann hafði tekið inn verkjalyf, en sá læknir mat hann einnig vinnufæran, og taldi verkjalyfin farin úr honum. Maðurinn hafi þá mætt til vinnu. Trúnaðarlæknir hafi verið beðinn um að líta á manninn í ljósi deilna flugumferðarstjóra við Flugmálastjórn að undanförnu og mikilla veikinda starfsmanna.

Loftur segir manninn hafa verið veikan. Vinnubrögð Flugmálastjórnar séu ótrúleg og ekki til fyrirmyndar. Flugumferðarstjórar eigi að vera heima þegar þeir séu veikir og treysti sér ekki til vinnu. Hætt sé við því að starfsmenn fari að mæta veikir til vinnu af ótta við heimsóknir trúnaðarlækna og valdbeitingu yfirmanna, og stofna þar með flugöryggi í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×