Innlent

Hækkun áfengisgjalds yfirgengileg

Ísland og Noregur eru með hæstu áfengisgjöld í veröldinni, en ef frumvarp fjármálaráðherra um tæplega 60% hækkun áfengisgjalds gengur í gegn mun Ísland tróna eitt á toppnum. Hækkunin er yfirgengileg aðgerð að mati framkvæmdastjóra Félags íslenskra stórkaupmanna, og hefði í för með sér að minnsta kosti þriggja milljarða tekjuaukningu fyrir ríkissjóð.

Útreikningar Félags íslenskra stórkaupmanna miðast við forsendur síðustu 12 mánaða og ganga þvert á yfirlýsingar Árna Mathiesens fjármálaráðherra sem hefur haldið því fram í fjölmiðlum að hækkunin muni ekki skila tekjuaukningu til ríkissjóðs og áfengisgjaldið sé einungis hækkað til að mæta lækkun virðisaukaskatts.

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna segir fullyrðingu ráðherra ekki standast, hann segir tekjurnar verða í það minnst þrjá milljarða.

Andrés segir hækkunina óskiljanlega og sama hvernig menn leggi dæmið upp, tekjuaukning ríkissjóðs verður veruleg.

Þá hefur ráðherra sagt möguleika á að lækka álagningu ÁTVR á áfengi til að mæta hækkun áfengisgjaldsins. Álagning ÁTVR á léttvíni og bjór er um 9%, en einungis 6% á sterk vín. Þetta er með því lægsta sem þekkist í smásölu og segir Andrés að einkarekstur gæti ekki staðið undir jafn lágri álagningu. Hann segir hækkun áfengisverðs muni skila sér beint út í almennt verðlag og leiða til hækkunar vísitölu.

Þegar leitað var eftir viðtali við fjármálaráðherra í dag sagði aðstoðarmaður hans ráðherra ekki telja tímabært að gefa yfirlýsingu þar sem verið væri að vinna að nánari útfærslu frumvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×