Kínversk yfirvöld hyggjast grípa til nýrra ráða til þess að sporna við mannfjölgun í landinu og munu frá og með næsta ári greiða fólki á landsbyggðinni tiltekna fjárhæð fyrir það að eignast aðeins eitt barn eða tvær stúlkur.
Fram kemur á fréttavef BBC að fjölmargir á landsbyggðinni hafi brotið reglur kínverskra stjórnvalda um að hjón megi aðeins eiga eitt barn eða tvö ef það fyrsta er stúlka.
Með því að fara á svig við reglurnar vill fók tryggja að það hafi nógu marga til þess að sjá um sig í ellinni. Þá hefur útburður stúlkna á landsbyggðinni færst í aukana eftir að reglurnar voru settar því margir telja að drengir haldi upp fjölskyldunafninu og sjái um foreldra sína í ellinni. Þetta hefur meðal annars leitt til mikils kynjaójafnvægis í Kína og eru karlar taldir um 60 milljónum fleiri en konur í landinu.
Með rúmlega fimm þúsund króna greiðslu á ári á að létta byrðinni af einbirnum sem sjá um foreldra sína og fá allir foreldrar yfir sextugu sem eiga eitt barn, eða tvær stúlkur, greiðslurnar. Kínverjar eru nú alls 1,3 milljarður.