Innlent

Vill banna hesta í framsæti bifreiða

Í lesendabréfi í Vesturlandsvefnum Skessuhorni segir frá því að legið hafi við stórslysi í Melasveit í Borgarfirði, á dögunum, þegar bíll ók inn á veginn, þvert í veg fyrir aðra bíla. Í þessum bíl reyndist vera kona sem hafði meðalstóran hund í kjöltu sér, og virtist hafa litla stjórn á ökutækinu, enda hundurinn allur á iði.

Höfundur bréfsins hringdi í lögregluna til þess að kanna málið, og var tjáð að ekkert í umferðarlögum bannaði fólki að hafa gæludýr í fangi sér við akstur. Bréfritari telur, í ljósi þessarar reynslu, að líklega vanti einhver ákvæði í umferðarlög.

Mætti þar t.d. nefna ákvæði um að bannað sé að stunda stjörnuskoðun samhliða akstri; bannað sé að hafa fleiri en 12 lausa grísi í hverjum fólksbíl, bannað sé að hafa fleiri en 30 óða ketti í hverjum bíl og bannað sé að hafa hest í framsæti bifreiðar nema hann sé í beisli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×