Innlent

Rannsaka fiskvinnslu hér á landi

Fiskvinnsla er nú orðin viðfangsefni þjóðháttafræðinga en Þjóðminjasafnið ætlar á næstu dögum að senda út spurningalista til fyrrverandi og núverandi fiskvinnslufólks í leit að sögum og lýsingum á starfinu.

Fimm til sexhundruð manns sem hafa unnið í fiskvinnslu fá á næstu dögum langan spurningalista frá Þjóðminjasafninu. Ágúst Georgsson, þjóðháttafræðingur á Þjóðminjasafninu, segir markmiðið að ná til fólks sem unnið hafi við fiskvinnsku síðustu 50 ár til lengri eða skemmri tíma.

Leitað sé eftir upplýsingum um allt sem viðkomi fiskvinnslu, bæði vinnslu á bolfiski og skelfiski. Spurt sé um hvað fólk hafi borðað og hvernig það hafi verið ráðið til starfans og hvert kaupið hafi verið. Einnig sé spurt um samskipti á vinnustað og erlenda starfsmenn og íslenska farandverkamenn í fiskvinnslu.

Upplýsingarnar verða síðan settar inn í lokaðan gagnabanka Þjóðminjasafnsins þar sem fræðimenn og stúdentar munu hafa aðgang að þeim.

Þannig að ef þú ert einn af þeim fjölmörgu sem hefur tínt orma, slægt eða flakað - og færð spurningalistann með pósti á næstunni - þá hvetur Þjóðminjasafnið þig til að deila reynslu þinni - um þekkingu um starfsemi sem ella er hætt við að fari forgörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×