Innlent

Tveir Íslendingar í haldi í Brasilíu

Tveir Íslendingar sitja nú í gæsluvarðhaldi í Brasilíu fyrir tvö aðskilin fíkniefnamál.

Tuttugu og níu ára Íslendingur situr í gæsluvarðhaldi fyrir að reyna að smygla úr landi tveimur kílóum af kókaíni. Maðurinn var handtekinn norðanlega í landinu í byrjun júní síðastliðnum.

Mál mannsins kom inn á borð hjá utanríkisráðuneytinu í framhaldi handtökunnar í sumar og hafði ráðuneytið milligöngu um að útvega honum lögfræðing. Okkur hafa ekki borist upplýsingar um hvort dómur sé fallinn í máli mannsins, segir Pétur Ásgeirsson, skrifstofustjóri hjá utanríkisráðuneytinu. Að sögn Péturs situr maðurinn enn í gæsluvarðhaldi vegna málsins og ráðuneytinu hefur ekki borist frekari ósk um aðstoð frá manninum. Verði hann fundinn sekur getur hann átt von á að afplána allt að átján ára fangelsisdóm.

Annar tuttugu og níu ára gamall Íslendingur var handtekinn á flugvellinum í Sao Paulo á mánudaginn þegar rúm tólf kíló af hassi fundust við gegnumlýsingu á hátalaraboxi sem hann hafði meðferðis frá Amsterdam. Við nánari leit á manninum fundust nokkrar e-töflur og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald í framhaldinu. Verði hann fundinn sekur getur hann átt yfir höfði sér langan fangelsisdóm, eða allt að sautján ár á bak við lás og slá.

Maðurinn sem var handtekinn á dögunum hefur setið í fangelsi hérlendis vegna fíkniefnamisferlis. Samkvæmt heimildum blaðsins býr faðir hans jafnframt í Brasilíu og hefur hlotið ótal dóma hérlendis fyrir ýmsar sakir. -




Fleiri fréttir

Sjá meira


×