Innlent

Mótmæla nýrri skattheimtu

Frá byggingarstað Samtök verslunar og þjónustu vilja meina að ný skattheimta á byggingavörur muni fylgja nýrri stofnun.
Frá byggingarstað Samtök verslunar og þjónustu vilja meina að ný skattheimta á byggingavörur muni fylgja nýrri stofnun. MYND/Vilhelm

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) áætla að um 200 milljónir króna leggist á kaupendur almennrar byggingavöru vegna breytinga sem eru boðaðar í frumvarpi Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra um stofnun svonefndrar Byggingarstofnunar.

Um er að ræða nýtt eftirlit með þessum vöruflokki og áætla SVÞ að leggja þurfi 0,3 til 0,4 prósenta gjald á almennar byggingavörur til að fjármagna eftirlitið. Samtökin vara við frekari álögum og segja að þær muni leiða til hærri byggingakostnaðar.

Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri SVÞ, segir fundi með starfsmönnum ráðuneytisins um frumvarpið hafa leitt í ljós marga lausa enda.

„Við erum mjög ósáttir við allt að 200 milljóna króna aukagjald á byggingavörur án þess að lækkað verði vörugjald sem við höfum gagnrýnt lengi. Þetta er skattur og af hverju er hann ekki tekinn af fjárlögum eins og aðrir skattar,“ spyr Sigurður en bætir því jafnframt við að margt sé til bóta í nýju frumvarpi; ekki síst sameining eftirlitsstofnana á einn stað.

Byggingarstofnun er ætlað að taka yfir verkefni sem nú eru í höndum Skipulagsstofnunar, Brunamálastofnunar, Neytendastofu og Vinnueftirlits ríkisins en fjárframlög ríkisins til þessara stofnana fylgja þeim til Byggingarstofnunar ef af verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×