Innlent

Barnaafmæli fagnað í fangelsi

Börn geta dvalið hjá mæðrum sínum í fangelsinu.
Börn geta dvalið hjá mæðrum sínum í fangelsinu.

Haldið var upp á afmæli tveggja ára gamallar stúlku í fangelsinu í Kópavogi fyrir skemmstu. Stúlkan hefur dvalið hjá móður sinni í fangelsinu frá fæðingu.

Guðmundur Gíslason, forstöðumaður fangelsanna á höfuðborgarsvæðinu, segir að börnum hafi nokkrum sinnum verið leyft að vera hjá móður sinni í fangelsinu. Börn geta dvalið hjá mæðrum sínum í fangelsinu ef þannig stendur á og ef barnaverndaryfirvöld heimila það. Miðað er við að börnin séu mjög ung, ekki eldri en tveggja og hálfs árs, þegar þau búa í fangelsinu, til að vistin hafi ekki óæskileg áhrif á þau. Að vísu er nú ekki margt í Kópavogsfangelsi sem minnir á að það sé fangelsi og í þessu tilviki þá fer barnið til dæmis á hverjum degi á barnaheimili, segir Guðmundur.

Guðmundur segir afmælisveisluna hafa verið mjög gleðilega. Fangaverðir komu og fangarnir tóku þátt. Það var bara reynt að gleðja barnið eins og hægt var við þessar aðstæður. Við bökuðum köku og reyndum að hafa þetta sem líkast eðlilegu afmæli. En eins og gefur að skilja voru nú ekki mörg börn á staðnum.

Konan, sem er frá Sierra Leone, var ófrísk þegar hún var handtekin og fæddi barnið á meðan á fangavistinni stóð. Hún mun ljúka afplánun innan skamms og verður dóttirin hjá henni þangað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×