Sport

KR-ingar í annað sætið

KR-ingar skutust í annað sæti Landsbankadeildarinnar í kvöld þegar liðið lagði ÍBV 2-0 í vesturbænum. Björgólfur Takefusa skoraði bæði mörk KR í kvöld. Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, var afar óhress með leik sinna manna í kvöld og sagði þá hafa spilað eins og "helvítis lopasokka og aumingja" í fyrri hálfleiknum í viðtali við Guðjón Guðmundsson á Sýn.

Skagamenn lyftu sér af fallsvæðinu með góðum 1-0 sigri á Keflvíkingum á Skipaskaga, þar sem Hafþór Ægir Vilhjálmsson skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik.

Grindvíkingar tryggðu sér jafntefli gegn Víkingum á heimavelli sínum í Grindavík. Viktor Bjarki Arnarsson kom Víkingi yfir á 59. mínútu, en varamaðurinn Michael Jónsson jafnaði fyrir Grindvíkinga á lokamínútunni.

KR-ingar skutust í annað sæti deildarinnar með sigri sínum á ÍBV í kvöld með 23 stig, einu stigi meira en Keflavík í þriðja sæti. Víkingur er í 5. sætinu með 20 stig, Grindavík með 19 í 6. sætinu og Skagamenn eru nú í því 7. með 17 stig. ÍBV er á botninum með 14 stig og þarf á kraftaverki að halda til að falla ekki í 1. deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×