Innlent

Evrópusambandið með áætlun um lækkun reikigjalda farsíma

Evrópusambandið hefur kynnt áætlun sem miðar að því að lækka reikigjöld fyrir notkun farsíma erlendis um allt að 70 prósent.

Tekjur farsímafyrirtækja af reikigjöldum eru oft um 10-15 prósent af heildartekjum fyrirtækjanna. Neytendasamtök hafa margsinnis bent á að reikigjöld fyrir farsímanotkun utan heimalandsins séu svo margfalt dýrari en gjöld fyrir símtöl innanlands að flestir farsímanotendur fái áfall við að sjá reikninginn við heimkomuna.

Reikigjöld vinna farsímafyrirtækjum í Evrópusambandinu inn ríflega 817 milljarða íslenskra króna en ESB áætlar að sú tala gæti lækkað um rúman helming ef áætlun sambandsins gengur eftir. Breytingin myndi sérstaklega gagnast fólki sem ferðast mikið vegna vinnu sinnar.

Farsímafyrirtæki eru hins vegar afar mótfallin þessum fyrirætlunum og segjast þegar hafa undirbúið og hrundið í framkvæmd miklum verðlækkunum sem eigi eftir að skila sér til farsímanotenda í útlöndum.

Vonast er til að áætlun Evrópusambandsins geti tekið gildi næsta sumar en fyrst þarf tillagan að hljóta samþykki Evrópuþingsins og stjórnvalda í aðildarríkjum Evrópusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×