Innlent

Skortur á leiðsögumönnum

Skólastjóri Ferðamálaskóla Íslands vill að ríkið veiti auknum fjármunum í ferðaþjónustuna. Mikill skortur er orðinn á leiðsögumönnum hér á landi sem búa yfir ákveðinni tungumálakunnáttu.

Eins og kunnugt er er fjöldi þeirra ferðamanna sem heimsækir Ísland ár hvert sífellt að aukast. Líklega er vandfundinn sá ferðamaður sem ekki vill leiðsögn og fræðslu um það sem fyrir augu ber í ferðum sínum um landið og því þýðir aukinn ferðamannafjöldi aukin eftirspurn eftir leiðsögumönnum. Friðjón Sæmundsson, skólastjóri Ferðamannaskóla Íslands, segir nú svo komið að skortur sé á leiðsögumönnum sem tali spænsku, ítölsku, hollensku og rússnesku - og jafnvel litháísku og eistnesku. Aðspurður segir hann þetta eiginlega orðið "ástand".

Kristófer Már Kristinsson, leiðsögumaður og kennari við Ferðamálaskóla Íslands, segir í grein í Morgunblaðinu í vikunni tímabært að íhuga þann kost að setja á ítölu ferðamanna til landsins. Friðjón er ekki sammála því. Hann segir að ríkið eigi frekar að veita auknum fjármunum til ferðamannaþjónustunnar því fólk sé að fá tekjur af ferðamönnunum. Til að mynda ætti að vinna að því að bæta aðgengi að helstu ferðamannastöðunum í stað þess að takmarka fjölda þeirra.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×