Innlent

Átta í framboði hjá Framsókn í SV-kjördæmi

MYND/Pjetur

Átta sækjast eftir sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi þingkosningar, en valið verður á listann á aukakjördæmisþingi í Félagsheimili Seltjarnarness á laugardag.

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra sækist eftir að leiða listann en fjórir stefna á annað sætið, þau Gísli Tryggvason, Samúel Örn Erlingsson, Una María Óskarsdóttir og Þórarinn E. Sveinsson. Þá sækist Hlini Melsted Jóngeirsson eftir 3.-6. sæti, Kristbjörg Þórisdóttir eftir 4. sæti og Gunnleifur Kjartansson eftir 4.-6. sæti, en kosið verður um sex efstu sætin.

Þingið hefst klukkan tíu á laugardagsmorgun og eftir að frambjóðendur hafa kynnt sig og sín mál verður gengið til kosninga. Kosið verður um eitt sæti í einu, fyrst um fyrsta sætið, þá annað sætið og svo koll af kolli.

Til þess að hljóta kosningu í tiltekið sæti þarf frambjóðandi að hljóta yfir helming atkvæða sem þýðir að kosið verður aftur á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fá í tiltekið sæti ef enginn fær meirihluta. Búist ef við að niðurstöður kosninganna liggi fyrir fyrir hádegi á laugardag.

Siv Friðleifsdóttir er eini þingmaður flokksins í kjördæminu nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×