Innlent

183 hafa smitast af HIV

Yngsti Íslendingurinn sem hefur greinst með alnæmi var innan við fimm ára gamall og smitaðist í móðurkviði. Alls hafa 183 Íslendingar smitast af HIV-veirunni frá árinu 1983.

Tveir af hverjum þremur sem smitast hafa af HIV-veirunni smituðust á aldrinum tuttugu ára til fertugs. Sá yngsti var innan við fimm ára þegar hann greindist með veiruna og þeir elstu komnir yfir sextugt. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur, þingmanns Samfylkingar.

Smit er mun algengara meðal karla en kvenna. 141 karlmaður hafa greinst með HIV, um hundrað fleiri en konurnar sem eru 42. Í seinni tíð hefur smiti meðal kvenna fjölgað hlutfallslega. Helmingur þeirra sem hafa greinst með veiruna frá árinu 1983 eru samkynhneigðir. Þriðjungur smitaðist við mök karls og konu og einn af hverjum níu fengu veiruna við að sprauta fíkniefnum í æð.

Heilbrigðisráðherra segir að rætt hafi verið um að ókeypis smokkar liggi frammi í skólum, unglingamóttökum og á heilsugæslum. Kostnaður við það sé talin liggja á bilinu tíu til tuttugu milljónir og hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort ráðist verði í slíkar aðgerðir. Þá sé til skoðunar að auðvelda aðgengi sprautufíkla að hreinum sprautum og nálum en ákvörðun liggi ekki fyrir um hvort slíkt verði gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×