Sport

Wigan leitar hefnda gegn United

Manchester United getur náð öðru sætinu af Liverpool á ný með sigri í kvöld
Manchester United getur náð öðru sætinu af Liverpool á ný með sigri í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Einn leikur er á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld þegar liðin sem áttust við í úrslitaleik enska deildarbikarsins á dögunum, Wigan og Manchester United, leiða saman hesta sína á JJB-vellinum í Wigan.

Leikmenn Wigan vilja eflaust nýta sér meðbyr heimavallarins til að leita hefnda fyrir stóra tapið fyrir United í bikarúrslitaleiknum á dögunum. Paul Jewell, stjóri Wigan, er þó ekki að byggja neinar skýjaborgir fyrir leikinn.

"Við vitum að Manchester United er með betra lið en við og ef þeir spila vel í kvöld, munu þeir sigra. Við hinsvegar förum inn í alla leiki með það fyrir augum að ná í stig og okkur langar gjarnan að veita stuðningsmönnum okkar eitthvað til að gleðjast yfir. Ef hinsvegar stuðningsmenn liðsins eru ósáttir við stöðu liðsins í deildinni á þessum tímapunkti - geta þeir allt eins pakkað saman og farið heim," sagði Paul Jewell.

Sir Alex Ferguson lítur á leikinn sem mikilvægan áfanga fyrir liðið í baráttunni um annað sætið í deildinni. "Það er ekkert útlit fyrir að Chelsea ætli að gefa eftir á toppnum, en það er okkur gríðarlega mikilvægt að ná öðru sætinu og ég held að leikmennirnir geri sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að halda dampi í næstu leikjum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×