Geir H. Haarde forsætisráðherra er sannfærður um að verðbólgan fari að minnka strax upp úr næstu áramótum og segir auðveldara að sitja í Seðlabankanum og biðja um aðgerðir heldur en að bera ábyrgð í ríkisstjórn þegar kemur að stjórn efnahagsmála.
Seðlabankinn spáir ellefu prósenta verðbólgu fram á mitt næsta ár og hefur hækkað stýrivexti upp í þrettán prósent. Fyrir nokkrum dögum sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri að aðgerðir Seðlabankans væru of varfærnar ef eitthvað væri.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ummæli forsætisráðherra í takt við þeirra væntingar og segist undrandi á að bankinn hækki hagvaxtarspá sína um tæpt prósent á sama tíma og fjármálaráðuneytið lækki sína. Hæpnar forsendur séu fyrir verðbólguspánni. „Og meðan allir eru að reyna að draga úr væntingum og skapa forsendur fyrir lækkandi verðbólgu er Seðlabankinn að vinna gegn því. En ég held sem betur fer að það taki ekkert of margir mark á Seðlabankanum.“
Aðspurður um hvort Seðlabankinn sé að rýra sinn trúverðugleika með svona spám segir Vilhjálmur að það muni koma í ljós. „Ef svo reynist að þeir hafi rangt fyrir sér þá hljóta að vakna upp spurningar um hæfni þeirra sem eru að stýra þessum spám í Seðlabankanum.“