Innlent

Starfa undir eigin merkjum

Marel hefur keypt danska matvælavélaframleiðandann Scanvaegt International á 109,2 milljónir evra, eða sem nemur tæplega 9,9 milljörðum íslenskra króna.

Fyrirtækið segir að með kaupunum aukist velta þess um yfir 100 prósent á árinu, en Marel keypti einnig nýverið breska fyrirtækið AEW Delford.

Marel og Scanvaegt starfa áfram á markaði sem tvær aðskildar rekstrareiningar með sín eigin vörumerki. Hörður Arnar­son, forstjóri Marels, segir mikla hagræðingarmöguleika nýtast í fyrirsjáanlegum vexti starfseminnar og býst ekki við samdrætti í mannahaldi. „Orðspor Scanvaegt er afar gott og vörur þess framúrskarandi,“ segir hann og kveðst líta á kaupin sem stórt skref við innleiðingu á stefnu Marel um að vera í forystu á alþjóðlegum markaði í þróun og markaðssetningu á sviði matvælavéla. Í febrúar sagðist fyrirtækið ætla að þrefalda veltuna á næstu þremur til fimm árum.

Með viðskiptunum eignast Lars Grundtvig, stjórnarformaður Scanvaegt, og fjölskylda átján prósenta hlut í Marel og verða þar þriðji stærsti hluthafi. Lárus Ásgeirsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Marels, leiðir starfsemi Scanvaegt ásamt Erik Steffensen, núverandi framkvæmdastjóra.

Hjá Marel samstæðunni starfa nú yfir 2000 starfsmenn, þar af um 350 á Íslandi, 795 í Danmörku, 380 í Bretlandi, auk starfsmanna á yfir 30 söluskrifstofum víða um heim.

Landsbanki Íslands veitti Marel ráðgjöf við kaupin Scan­vaegt International.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×