Innlent

Íslendingar fjárfestu jafnmikið og Bretar í Danmörku

Magasin du Nord er meðal þeirra fyrirtækja sem Íslendingar eiga í Danmörku.
Magasin du Nord er meðal þeirra fyrirtækja sem Íslendingar eiga í Danmörku. MYND/Pjetur

Íslendingar fjárfestu jafnmikið og Bretar í Danmörku árið 2004 en þessar tvær þjóðir vermdu toppsætin í kaupgleði á dönskum fyrirtækjum. Í Kaupmannahafnarpóstinum er greint frá því að árið 2004 hafi íslensk fyrirtæki fjárfest fyrir 6,2 milljarða danskra króna í Danmörku, eða um 60 milljarða íslenskra króna, sem er nánast sama upphæð og Bretar fjárfestu fyrir.

Í blaðinu er talið að nýlendutengsl við Dani kunni að vera skýring kaupáhugans en íslenskir kaupahéðnar, sem vitnað er til, benda þó á að gróði sé þeim ofar í huga en áhuginn á að kaupa allt sem hönd á festir hjá gömlu herraþjóðinni. Fjárfestingar Íslendinga í Danmörku héldu áfram eftir 2004, m.a. með kaupum á, eða í, fyrirtækjunum Sterling, Unibrew og Bang & Olufsen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×