Innlent

Gangsetningu kerja er lokið

Álverið á Grundartanga  Víglsuathöfn var í gær á Grundartanga vegna aukinnar framleiðslugetu álversins úr 90.000 tonnum í 220.000 tonn.
Álverið á Grundartanga Víglsuathöfn var í gær á Grundartanga vegna aukinnar framleiðslugetu álversins úr 90.000 tonnum í 220.000 tonn. MYND/JSE

Norðurál, dótturfélag Century Aluminum Company, lauk í gær við gangsetningu allra kerja í álverinu á Grundartanga vegna stækkunar þess og var haldin vígsluathöfn á Grundartanga við það tækifæri. Gert er ráð fyrir að verið afkasti 220.000 tonna árlegri framleiðslu á áli fyrir árslok, en það framleiddi áður um 90.000 tonn. Stækkunarferlinu verður lokið í lok næsta árs, þegar ráðgert er að álverið framleiði alls 260.000 tonn. Jón Þorvaldsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og fjármálasviðs hjá Norðuráli, gat ekki sagt til um hversu mikil mengunaráhrif þessi stækkun hefði í för með sér þegar Fréttablaðið ræddi við hann í gær, en sagði það innan núverandi mengunarviðmiða.

Stækkun álversins kostar um 35 milljarða króna og vonast forsvarsmenn Norðuráls að framleiðsluaukningin muni auka útflutningstekjur um allt að 17 milljörðum á ári, þegar fram líða stundir. Að stækkun lokinni er búist við að rúmlega 400 manns sæki vinnu í álverinu og segir Jón Þorvaldsson að um 95 prósent starfsmanna séu Íslendingar. Jón sagði einnig að stækkunin væri einstakt verkefni að því leytinu til að innlendir bankar sæu að mestu leyti um fjármögnun og íslenskir verktakar sæu að miklu leyti um framkvæmdina.

Til vígsluathafnarinnar í gær mættu þeir Logan Kruger, forstjóri Century Aluminum, Craig Davis stjórnarformaður, Jón Þorvaldsson og Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×