Innlent

Lokahrina varnarviðræðna yfirstaðin

Lokahrinu varnarviðræðna íslenskra og bandarískra stjórnvalda var haldið áfram í dag í Washington og lauk rétt í þessu. Íslenka sendinefndin er á leiðinni heim og ekki fleiri fundir á döfinni segir aðstoðarmaður forsætisráðherra og neitar að tjá sig frekar. Forsætisráðherra hefur lýst því yfir að viðræðunum ljúki fyrir mánaðarmót.

Kortér yfir tvö í dag að íslenskum tíma hófst lokahrina varnarviðræðna milli Bandaríkjanna og Íslands í bandaríska utanríkisráðuneytinu í Washington. Fundinum lauk nú rétt í þessu. Fulltrúar fjögurra ráðuneyta eru í íslensku samninganefndinni en Albert Jónsson er í forsvari nefndarinnar sem fyrr. Ragnheiður E. Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, situr í samninganefndinni og sagði í samtali við fréttastofu NFS, nú áðan að íslenska sendinefndin væri á leiðinni heim og ekki fleiri fundir á döfinni. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu sagði að allir þættir málsins hefðu verið ræddir og samkomulag lægi fyrir fljótlega. Linda Hartley talskona Bandaríska Utanríkisráðuneytisins sagði hinsvegar að fleiri fundir væru í farvatninu og tilkynningar frá bandarísku sendinefndinni væri að vænta.

Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur ekki látið ná í sig í dag en hefur lýst því yfir að hann vænti þess að viðræðunum ljúki fyrir brottför hersins þann fyrsta október næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×