Innlent

Hjálparhella Íslendinga bendluð við peningaþvætti

 

 

Hjálparhella íslenskra kaupsýslumanna í Danmörku, danski lögmaðurinn Jeff Galmond, og rússneski fjarskiptaráðherrann eru í aðalhlutverki fréttaskýringar Ekstrablaðsins danska í dag um íslensku útrásina.

Ekstrablaðið heldur í dag áfram viðleitni sinni að bendla íslenska kaupsýslumenn við peningaþvætti. Slagkrafturinn í fréttaskýringunni er þó eitthvað að minnka því ekki er minnst á hana á forsíðunni í dag en inni í blaðinu er opnugrein um fjarskiptaráðherra í ríkisstjórn Pútíns í Rússlandi. Sá heitir Leonid Reiman og samkvæmt Extrablaðinu þáði Reiman eina milljón dollara í mútur fyrir fjórtán árum.

Það mun hafa verið breskur kaupsýslumaður sem bar fé á Reiman í tengslum við stofnun símafyrirtækis í sankti Pétursborg. Peningarnir voru lagðir inn á reikning í svissneska bankanum Credit Suisse en skömmu síðar voru þeir komnir inn á reikning í Den Danske bank í Kaupmannahöfn. Í Danmörku var féð notað til að stofna danskt hlutafélag - Danco Finans, sem keypti síðan sumarbústað.

Samkvæmt skjölum sem Ekstrablaðið hefur undir höndum var það Jeff Galmand, danskur lögmaður íslenskra kaupsýslumanna, sem sá um allar peningafærslurnar fyrir Reiman en Galmand segir í blaðinu í dag að breski kaupsýslumaðurinn sé lygalaupur.

Ekki er minnst á Íslendinga í greininni í dag að öðru leyti en því að rifjað er upp að fyrrnefndur lögmaður, Jeff Galmand, hafi unnið fyrir Íslendinga og að Galmand sé nú bendlaður við leppfyrirtæki og peningaþvætti á rússnesku fé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×