Erlent

Al-Kaída boðar árásir

Í rústum heimilis Þessi maður í Líbanon notaði kodda til þess að slökkva eld eftir að flugskeyti féll á hús í bænum Zifta.
Í rústum heimilis Þessi maður í Líbanon notaði kodda til þess að slökkva eld eftir að flugskeyti féll á hús í bænum Zifta. MYND/AP

Ayman al-Zawahri, Egyptinn sem sagður er standa næst Osama bin Laden að völdum í al-Kaída, hótaði í árásum um heim allan í ávarpi á myndbandi, sem sýnt var í gær.

„Við getum ekki bara horft á þessar sprengjur þegar þær brenna bræður okkar á Gaza og í Líbanon og setið hjá aðgerðarlausir og auðmýktir,“ sagði hann og hvatti alla múslima til þess að grípa til vopna.

„Þetta er heilagt stríð í þágu guðs og það mun geisa þar til trú okkar ríkir allt frá Spáni til Íraks,“ sagði hann. „Við munum gera árásir alls staðar.“

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sagði aftur á móti á ríkisstjórnarfundi í gær að markmið árásanna á Líbanon væru að nást og Amir Peretz varnarmálaráðherra sagði að Hizbollah-samtökin yrðu ekki svipur hjá sjón í framtíðinni. Ísraelsstjórn sagðist í gær hafa tekið þá ákvörðun að árásirnar yrðu ekki hertar frá því sem verið hefur, en að minnsta kosti 30 þúsund Ísraelar hafa verið kallaðir í herinn og eru að hefja þjálfun.

Lítill árangur varð á alþjóðaráðstefnunni um Líbanon, sem haldin var í Róm á miðvikudag. Þar var þó ákveðið að senda alþjóðlegt friðargæslulið til Líbanons, en alls óvíst er hvernig það gæslulið verður samansett eða hvenær það fer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×