Innlent

Mega aðeins gifta sig í fimm löndum

Hæstiréttur Washington-ríkis í Bandaríkjunum úrskurðaði á dögunum að ekkert væri athugavert við lög sem banna samkynhneigðum að ganga í hjónaband í ríkinu. Nítján samkynhneigð pör höfðu kært lögin og töldu þau brjóta gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Hvar mega samkynhneigðir gifta sig?

Í dag mega samkynhneigðir aðeins ganga í hjónaband í fimm löndum. Þau eru Holland, Belgía, Spánn, Kanada og Bandaríkin, en í Bandaríkjunum mega þeir aðeins gifta sig í Massachusetts-ríki. Í Suður-Afríku hefur gifting samkynhneigðra verið lögleidd, en þau lög taka gildi í lok þessa árs. Mun fleiri lönd leyfa einhverja tegund af staðfestri sambúð samkynhneigðra, en meðal þeirra eru Danmörk, Finnland, Frakkland, Þýskaland, sex ríki Bandaríkjanna, Bretland og Ísland. Víða í Afríku og Austurlöndum er samkynhneigð ólögleg og liggur dauða­refsing við því í sumum löndum.

Deilur um lögmæti

Lögmæti hjónabands milli tveggja manneskja af sama kyni veltur að mestu leyti á því hvernig hugtakið hjónaband er skilgreint. Þeir sem eru fylgjandi hjónabandi samkynhneigðra segja það rétt þeirra, þar sem hjónaband sé löglegt samkomulag sem ekki ætti að vera einskorðað við tvær manneskjur af mismunandi kyni. Andstæðingarnir segja hjónaband samkynhneigðra ekki réttindi í sjálfu sér og ætti ekki að vera löglegt á siðferðislegum, trúarlegum eða samfélagslegum grundvelli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×