Innlent

Fundu skreyttan kamb frá sturlungaöld

Skreyttur kambur frá sturlungaöld fannst við fornleifauppgröft í Kolkuósi í Skagafirði í gær. Kamburinn er afar heillegur, tvöfaldur og settur saman með bronsnöglum en að öðru leyti gerður úr beini. Á honum er hringlaga skreyting sem er dæmigerð fyrir skreytilist 13. aldar.

Kamburinn fannst við höfn Hólabiskupsdæmis, þar sem áður hafa fundist merki um talsverða verslun við útlönd, bæði kjarnar úr framandi ávöxtum, útlenskir steinar sem verið hafa ballest í skipum og bein smáhunda sem voru stöðutákn og höfðingjar höfðu innanklæða og í fleti sínu til að halda á sér hita. Kolkuós hefur verið höfn frá landnámi og neðansjávarrannsóknir benda til að ýmislegt megi finna á hafsbotni. Fornleifafræðingar eru í óða önn að hreinsa utan af akkeri sem fannst seint í gær. Búist er við að akkerið verði komið á land síðar í dag og þá verði hægt að aldursgreina það. Rannsóknin í Kolkuósi tengist hólarannsókninni á Hólum í Hjaltadal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×