Innlent

Úrvalsvísitalan hríðlækkar

Úrvalsvísitalan í Kauphöllinni hefur hrunið síðustu fimm mánuði, eftir stöðuga hækkun undanfarin misseri. Eftir meira en helmingshækkun undanfarin tvö ár og snarpa uppsveiflu í byrjun ársins hefur hún lækkað um fjórðung síðan í febrúar.

Úrvalsvísitalan er mælikvarði á gengi fimmtán stærstu fyrirtækjanna í Kauphöllinni og þar með mjög góð vísbending um stöðuna á almennum markaði. Um miðjan daginn í dag stóð úrvalsvísitalan í rétt rúmlega 5290 stigum, sem er um fjórum komma fjórum prósentum lægra en um áramótin. Þrátt fyrir mjög góð hálfsársuppgjör nokkurra fyrirtækja undanfarið hefur úrvalsvísitalan ekki hækkað og í raun lækkað ef eitthvað er.

Þessi lækkun væri kannski ekki í frásögur færandi nema af því að undanfarin tvö ár hefur úrvalsvísitalan rokið upp og allt leit út fyrir að svo yrði áfram að þessu sinni. Um miðjan febrúar hafði úrvalsvísitalan hækkað um nærri fjórðung á aðeins einum og hálfum mánuði. Nú hefur þessi hækkun öll gengið til baka og gott betur.

Forstjóri Kauphallarinnar segir þó að lækkunina verði að skoða í samhengi og að hækkunin í upphafi árs hafi líklegast að einhverju leiti verið bóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×