Innlent

Ferðamenn fari varlega

Mikill straumur ferðamanna í friðlandinu Kringilsárrana og á Eyjabökkum gæti ógnað viðkvæmu dýralífi sem þar er. Ferðamenn sem þarna eiga leið um verða að sýna ítrustu varkárni í umgengni sinni um friðlöndin.

Nú þegar stutt er í að Hálslón verði fyllt við Kárahnjúka hefur straumur ferðamanna um svæðið eukist verulega. Aðgengi að friðlöndum eins og Kringilsárrana og Eyjabökkum hefur batnað með tilkomu vega sem lagðir hafa verið vegna framkvæmdanna og margir sem vilja berja landið augum áður en það fer undir vatn hafa nýtt sér það. Um 160 manns eru til að mynda saman komin við Snæfell í búðum Íslandsvina og margir fara í skipulagðar gönguferðir um Kringilsárrana og með bökkum Jöklu. Þegar fréttamaður átti leið um Kringilsárrana um síðustu helgi þá voru í það minnsta 50 manns þar á ferð að skoða náttúruna og dýralífið. Að sögn Kristins Hauks Skarphéðissonar, dýravistfræðings er mikið af gæsum á svæðinu og á þessum tíma árs eru þær einkar viðkvæmar, hafa fellt fjaðrir og eru ófleygar. Þá eru þær með unga og því ætti þeir sem þarna fara um að fara varlega og styggja ekki gæsirnar að óþörfu. Þá ætti fólk alltaf að fara varlega um gróðlendi og aðrar náttúruminjar, ekki skilja eftir sig rusl eða rífa upp gróður. Flestir ferðamenn á Kárahnjúkasvæðinu fara eftir þessum reglum en þó er góð vísa aldrei of oft kveðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×