Erlent

Eldflaugatilraunirnar fordæmdar

Einhugur ríkir á alþjóðavettvangi um að fordæma tilraunir Norður-Kóreumanna með langdrægar eldflaugar. Undanfarinn sólarhring hefur sjö tilraunaflaugum verið skotið frá Norður-Kóreu og hafa þær allar hafnað í sjónum.

Eldflaugarnar sjö sem Norður-Kóreumenn skutu á loft í nótt og í morgun eru af ýmsum stærðum og gerðum en í það minnsta ein þeirra er af tegundinni Taepodong-2 sem talin er geta dregið allt til austurstranda Bandaríkjanna. Eldflaugar af þessari tegund geta borið kjarnaodda og því er ekki að undra að íbúar Suður-Kóreu, Japans og Bandaríkjanna séu uggandi yfir þessum æfingum stjórnvalda í Pjongjang. Boðað var til neyðarfundar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag vegna málsins og þar var ályktunartillaga Japana þar sem skorað er á Norður-Kóreumenn að láta þegar í stað af tilraununum. Fundurinn var haldinn fyrir luktum dyrum og er ekki búist við að ályktunin verði borin undir atkvæði fyrr en á morgun. Hljóðið var hins vegar þungt í mönnum áður en hann hófst.

Samstaða virðist ríkja innan öryggisráðsins um að fordæma tilraunirnar en þó er óvíst hversu langt verður gengið í þeim efnum. Norðurkóresk yfirvöld telja sig hins vegar í fullum rétti og virðast hvergi ætla að hvika.

Viðræður við Norður-Kóreumenn um kjarnorkumál hafa staðið yfir með hléum undanfarin ár og telja stjórnmálaskýrendur að tilraunir þeirra nú séu öðru fremur liður í að bæta samningsstöðu sína í þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×