Innlent

Þögn ríkir meðal stjórnenda Alcan um alvarlega stöðu í starfsmannamálum

Rannveig Rist, forstjóri Alcan í Straumsvík, vill ekki tjá sig um starfsmannamál fyrirtækisins, þrátt fyrir alvarlega stöðu, eins og formaður Félags járniðnaðarmanna orðar það. Hann segir ennfremur að þögnin sýni að stjórnendur hafi ekki hreina samvisku.

Forkólfar verkalýðsfélaga tala sig saman þessa dagana um viðbrögð og aðgerðir við óútskýrðum uppsögnum reynslumikilla starfsmanna hjá Alcan í Straumsvík að undanförnu. Örn Friðriksson, formaður Félags járniðnaðarmanna, segir uppsagnir af þessum toga til þess fallnar að valda óöryggi og þær séu algerlega óútskýrðar af hálfu stjórnenda. Ekki sé nein hagræðing að baki uppsögnunum. Örn segir að fundað verði með starfsmönnum Alcan og ákvarðanir teknar í framhaldinu.

Örn segist hafa verið stuðningsmaður stækkunar álversins í Straumsvík hingað til, en framkoma stjórnenda þar á bæ sé að breyta þeirri skoðun hans líkt og gerst hafi hjá miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands.

Örn segir að viðlíka dæmi um óútskýrðar uppsagnir starfsmanna með mikla reynslu hafi ekki komið inn á borð Félags járniðnaðarmanna frá öðrum fyrirtækum. Aðspurður um hvað honum finnst um þá þögn sem ríkir um starfsmannamálin hjá stjórnendum Alcan segist hann taka í sama streng og þeir starfsmenn sem ekki hafi fengið skýringu á uppsögnum sínum, sýni þögnin nú að þeir hafi ekki mjög góða samvisku yfir verkum sínum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×