Innlent

Heppilegra hefði verið að hafa meira samráð við utanríkismálanefnd

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að betra og heppilegra hefði verið að hafa meira samráð við utanríkismálanefnd þegar ákveðið var að styðja innrásina í Írak árið 2003 en hins vegar telur hann að ákvörðunin hafi verið rétt miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir á þeim tíma.

Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, í óundiRbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Geir var spurður um afstöðu sína til málsins í kjölfar ummæla Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundi fyrir rúmri viku um að meira samráð hefði átt að hafa við utanríkismálanefnd á sínum tíma.

Þá kom fram í máli Geirs við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri - grænna, að leyfi Bandaríkjamanna til lendinga hér á landi og yfirflugs í tengslum við Íraksstríðið væri enn í gildi og engin ákvörðun hefði verið tekin um að afturkalla það. Sagði Steingrímur þetta sýna að atbeini Íslands að stríðinu væri enn í gildi og því boðun Framsóknarflokksins á endurskoðun málsins orðin tóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×