Erlent

Sprenging í flugeldaverksmiðju kostar tvo lífið

Tveir slökkviliðsmenn týndu lífi og 12 brenndust illa þegar eldur kviknaði í flugeldaverksmiðju í suðurhluta Englands í gærkvöldi. Erfitt reyndist að berjast við eldinn eftir að sprenging varð í verksmiðjunni nærri Lewes, um 100 kílómetra suður af Lundúnum. Eldurinn læsti sig einnig í birgðageymslu og þá var ekki að sökum að spyrja. Miklar sprengingar urðu og flugeldar skutust út í loftið. Ætla má að þeir hafi allir sprungið og sást reykurinn í margra kílómetra fjarlægð. Tveir slökkviliðsmenn týndu lífi þar sem þeir börðust við bálið og níu brenndust illa. Tveir vegfarendur og einn lögreglumaður slösuðust einnig.

Í morgun minntu rústir verksmiðjunnar einna helst á vígvöll en þá var búið að ráða niðurlögum eldsins. Slökkviliðsstjóri á svæðinu segir rannsókn á eldsupptökum þegar hafna en ætla megi að hún taki margar vikur. Sérfræðingar hafa enn ekki fengið að skoða vettvanginn af ótta við ósprungnir flugeldar springi nærri þeim. Slökkviliðsmenn fylgjast vel með svæðinu og gæta þess þar til óhætt verður til að hefja vettvangsrannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×