Rafmagnskaplar hafa verið grafnir niður í göngustíga á Klambratúni til að sjá tónleikum Sigur Rósar á morgun fyrir rafmagni. Að sögn Svanhildar Konráðsdóttur, forstöðumanns Höfuðborgarstofu, munu rafmagnskaplarnir verða í túninu um ókomna tíð. Þannig sé þeim möguleika haldið opnum að fleiri hljómsveitir geti haldið tónleika á svæðinu á komandi árum.
Búist er við mörgum gestum á tónleikana, sem eru hluti af ferðalagi Sigur Rósar um Ísland, og segist Svanhildur hafa heyrt af því fregnir að fólk hafi jafnvel frestað utanlandsferðum til að missa ekki af tónleikunum.