Innlent

Biðlistar eru á öllum leikskólum

Leikgarður Framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta segir ekki enn ljóst hversu mörg pláss losni þegar stofnunin tekur við rekstri Leikgarðs í haust.
Leikgarður Framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta segir ekki enn ljóst hversu mörg pláss losni þegar stofnunin tekur við rekstri Leikgarðs í haust.

Nemendur við Háskóla Íslands sem eiga börn eru í miklum vandræðum með að koma þeim fyrir á leikskólum Félagsstofnunar stúdenta. Stofnunin rekur þrjá leikskóla og tekur við rekstri eins, Leikgarðs, hinn 1. september næstkomandi. Þá verður rekstri leikskólans við Efrihlíð hætt svo leikskólar stofnunarinnar verða enn þrír.

Að sögn Guðrúnar Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Félagsstofnunar stúdenta, eru biðlistar á leikskóla stofnunarinnar algengir.

„Varðandi Leikgarð er bara ekki enn ljóst hversu mörg pláss losna þegar við tökum við leikskólanum í haust. Því þurfa margir enn að bíða eftir svari.“

Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir ekki nýtt að stúdentar eigi erfitt með að koma börnum sínum inn á leikskóla en Félagsstofnun stúdenta hafi gert sitt besta til að mæta þeirri þörf. Hann segist ánægður með að stofnunin hafi tekið við rekstri Leikgarðs, þar sé verið að mæta þörfum foreldra með yngstu börnin. Töluverðrar óánægju varð vart meðal starfsfólks Leikgarðs þegar ljóst varð að Félagsstofnun stúdenta tæki við rekstrinum en Guðrún segir búið að leysa vandann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×