Hlutabréf í Actavis hafa hækkað um 5,06 prósent í dag en um miðjan dag var tilkynnt um rúmlega hundrað milljarða lántöku fyrirtækisins hjá sex erlendum bönkum. Alls hafa bréf í félaginu hækkað um 12,65 prósent frá áramótum.
Meðal þeirra sem keyptu hlutabréf í Actavis í dag er Róbert Wessmann, forstjóri fyrirtækisins en í morgun var tilkynnt um kaup hans á 26 milljón hlutum í félaginu, þar með jók hann hlutabréfaeign sína í Actavis um nær fjórðung og á nú 3,87 prósent hlutabréfa í fyrirtækinu.
Önnur fyrirtæki sem hækkuðu mest að verðmæti í dag eru Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki í kjölfar viðskipta með hann um helgina sem komu inn í Kauphöllina í dag. Hækkunin nam 4,76 prósentum. Þá hækkuðu hlutabréf í FL Group um 3,96 prósent.
Hlutabréf í Actavis hafa hækkað mest allra bréfa í úrvalsvísitölu frá áramótum, um 12,65 prósent. Bréf í fjórum fyrirtækjum til viðbótar hafa hækkað sem nemur um tíu prósentum eða meira, Straumur-Burðarás 10,69 prósent, Íslandsbanki 10,40 prósent, Marel 10,00 prósent og FL Group 9,95 prósent.