Erlent

Árásum á Gaza haldið áfram

Ísraelsk stjórnvöld segjast ætla að halda árásum á Gaza áfram svo lengi sem þurfa þykir. Þau segja ekki koma til greina að láta palestínska fanga í skiptum fyrir ísraelskan hermann sem skæruliðar hafa í gíslingu, eins og leiðtogi Hamas-samtakanna stakk upp á í dag.

Ísraelar tóku upp þráðinn í dag á Gaza-ströndinni þar sem frá var horfið og féllu þrír palestínskir skæruliðar í loftárás hersins. Á sjötta tug Palestínumanna hefur beðið bana í árásum síðustu daga, þar af tuttugu saklausir borgarar. Handtaka ísraelska hermannsins Gilad Shalits er öðrum þræði ástæða árásanna en palestínskir skæruliðar, tengdir Hamas-samtökunum, hafa hann í gíslingu sinni. Í morgun ræddi leiðtogi Hamas við blaðamenn í útlegð sinni í Sýrlandi en hann birtist sjaldan opinberlega þar sem Ísraelar sitja um líf hans.

Málið er hins vegar ekki svona einfalt því stjórnvöld í Jerúsalem segja ekki koma til greina að láta einn einasta fanga í skiptum fyrir ísraelska hermanninn. Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, ítrekaði þetta svo vandlega í dag að enginn ætti að vera í minnsta vafa á eftir.

Olmert sagði að árásunum yrði því haldið áfram um óákveðinn tíma til að knýja Palestínumenn til að láta hermanninn lausan og hætta eldflaugaárásum yfir ísraelsku landamærin. Hann kvaðst svo ætla að halda lokun ísraelskra landnemabyggða á Vesturbakkanum til streitu þrátt fyrir ólguna á Gaza.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×