Viðskipti erlent

Ryanair gegn breska ríkinu

Ein af vélum Ryanair.
Ein af vélum Ryanair. Mynd/AFP

Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair ætlar að höfða mál gegn breska ríkinu og krefjast 3,3 milljóna punda, jafnvirði 438 milljóna íslenskra króna, vegna hertra flugöryggisreglna til að koma í veg fyrir hryðjuverk í flugvélum.

Michael O'Leary, forstjóri flugfélagsins, segir reglurnar klúður en samkvæmt þeim er handfarangur farþega takmarkaður auk þess sem þeir þurfa að sæta sig við ítarlega leit. Munu aðgerðirnar hafa leitt til tafa á Heathrow og niðurfellingar á flugi frá breskum flugvöllum dagana 10. til 16. ágúst með tilheyrandi tapi fyrir flugfélagið.

Flugfélagið hefur gefið ríkinu viku til að rýmka reglurnar. Fari svo að ríkið verði dæmt til að greiða Ryanair skaðabætur vegna þessa munu bæturnar verða gefnar til góðgerðamála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×