Úkraínumaðurinn Andriy Shevchenko hjá AC Milan segir að stuðningsmenn liðanna í ítölsku deildinni verði að fara að hugsa sinn gang eftir að stuðningsmenn Inter Milan réðust að tveimur leikmönnum liðsins á dögunum eftir að þeim þótti gengi liðsins ekki viðunandi.
"Við verðum að hugsa um framtíðina og ef svo fer sem horfir, verður þetta orðið eins og í hringleikahúsunum í Róm til forna og leikmenn verða tættir í sundur af stuðningsmönnum sínum ef þeir standa ekki undir væntingum," sagði Shevchenko. "Allir leikmenn eru í knattspyrnu með það fyrir augum að vinna og það er fáránlegt að halda öðru fram. Lætin hér á Ítalíu eru komin fram úr öllu valdi og þetta er alls ekki svona heima í Úkraínu eða annarsstaðar svo ég viti til," bætti hann við.