Erlent

Kaup á lettneskum banka gagnrýnd

Í nýjustu grein Ekstra Bladet um íslenskt viðskiptalíf er ýjað að því að lettneski bankinn Lateko hafi beitt danska bankamenn blekkingum til að fá sambankalán. Bankinn er í eigu Íslendinga.

Fyrr á þessu ári keypti Straumborg, félag í eigu Jóns Helga Guðmundssonar, kenndum við BYKO, ásamt öðrum lettneskan bankann Lateko Bank. Í greininni lýsir Ekstra Bladet hvernig bankinn á að hafa nokkru árum áður tekið þátt í að aðstoða skjólstæðing sinn, rússnesku olíufélagi, við að skjóta umtalsverðum fjármunum undan skatti. Eigandi olíufélagsins er svo sagður eiga í dómsmáli í Bandaríkjunum vegna viðskipta skúffufyrirtækis síns en til þess eiga miklir fjármunir að hafa runnið um bankareikning hjá Lateko.

Um síðarnefnda málið segir blaðið Íslendingana að hafa þagað þegar þeir fengu danska bankann Morsö Bank til að taka þátt í veitingu sambankaláns til Lateko á sínum tíma og er nafn Kaupþings banka í Lúxemborg sérstaklega nefnt í því sambandi.

Ekstra Bladet fullyrðir að bankastjóri Morsö Bank hafi sagt í samtali við blaðamann að ef hann hefði haft þessar upplýsingar undir höndum á sínum tíma hefði hann lagst gegn því að Morsö Bank veitti lánið. Blaðið hefur eftir Jóni Helga í sömu grein að hann hafi vitað af vafasömum starfsháttum Lateko og að starfsmenn Morsö hafi verið látnir vita af þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×