Innlent

Sáttaferli á átakasvæðum

Hafnarfjarðarkirkja Ráðstefna um friðarstarf og sáttaferli verður haldin í safnaðarheimilinu Strandbergi í dag.
Hafnarfjarðarkirkja Ráðstefna um friðarstarf og sáttaferli verður haldin í safnaðarheimilinu Strandbergi í dag. MYND/Stefán

Kjalarnessprófastsdæmi og Hafnarfjarðarkirkja standa að ráðstefnu um friðarstarf og sáttaferli í safnaðarheimilinu Strandbergi í dag.

Dr. Rodney Petersen, forstöðumaður Guðfræðistofnunarinnar í Boston, og dr. Raymond Helmick S. J., jesúítaprestur og alþjóðlegur sáttasemjari til fjölda ára, hafa þróað og beitt árangursríkum aðferðum til sáttaumleitana á átakasvæðum, meðal annars á Balkanskaga og Norður-Írlandi. Þeir flytja röð fyrirlestra á ráðstefnunni um friðarstarf og sáttaferli í Strandbergi sem hefst klukkan 9.45 með stuttri helgistund í Hafnarfjarðarkirkju en safnaðarheimilið opnar klukkan 9 með léttum morgunverð.  Fyrst fer fram kynning á félagslegu sáttaferli en síðan verður fjallað um fjögur lykilhugtök í félagslegu sáttaferli í máli og myndum, erindum og umræðum.

Ráðstefnan fer fram á ensku en stuttur útdráttur á íslensku verður fluttur eftir hvern fyrirlestur. Ráðstefnan er öllum þeim opin sem láta sig málefni hennar varða.

Í fyrrahaust heimsóttu prófastur og prestar úr Kjalarnessprófastsdæmi Guðfræðistofnunina í Boston og kynntu sér starfsemi hennar. Ráðstefnan í Strandbergi er ávöxtur af góðu samstarfi sem myndast hefur við stofnunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×