Innlent

Vildu ekki senda viðgerðarmann um helgi

Öryggishnappur hjá eldri konu í Stórholtinu var óvirkur í rúman sólarhring eftir að verktaki gróf í sundur símalínuna. Þá voru aðrir íbúar við götuna án netsambands og sumir án sjónvarps. Ekki stóð til að gera við bilunina fyrr en á morgun, þar til Síminn vissi að málið væri komið í fjölmiðla.

Um klukkan hálf tíu í gærmorgun gróf verktaki sem unnið hefur við framkvæmdir í Stórholtinu að undanförnu í sundur símalínu.

Matthildur Jóhannsdóttir, íbúi í Stórholtinu, ætlaði að kaupa sér ferð á internetinu en það gat hún ekki gert án netsambands. Hún segist hafa fengið þau svör hjá Símanum að ekki yrði maður kallaður út um helgi þar sem það væri of dýrt. Hún segir þó alla þá sem hún talaði við hafa verið mjög kurteisa. Matthildur segir viðgerðarmann hafa komið fljótlega á staðinn eftir að NFS hafði samband við Símann.

Nágrannakona Matthildar sem er með öryggishnapp hjá Securitas vegna veikinda var með óvirkan hnappinn þar sem hann er tengdur í gegnum símalínuna.

Símasamband var komið á í Stórholtinu klukkan þrjú í dag og lét Síminn íbúa vita með upphringingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×