Innlent

Einstök rit afhent Hóladómkirkju

MYND/Vísir

Hóladómkirkja fékk í dag afhent einstakt rit- og bókasafn en í því má finna rit frá upphafi prentlistar á Hólum til loka 18. aldar og eru mörg þeirra fátíð.

Gengið var til hátíðarguðþjónustu á þessum lokadegi árlegu Hólahátíðarinnar. Í ár á biskupsstóll og skólinn á Hólum í Hjaltadal 900 ára afmæli og í tilefni þessa afhenti forsætisráðherra Hóladómkirkju rita- og bókasafn séra Ragnars Fjalars Lárussonar prófasts að gjöf frá íslenska ríkinu.

Íslenska ríkið gekk frá kaupum á safninu í síðustu viku af Herdísi Helgadóttur ekkju séra Ragnars Fjalars en í því eru rit sem prentuð voru hér á landi frá upphafi prentlitar á Hólum til loka 18. aldar. Ragnar náði að safna flestum þessara rita í eitt safn en alls eru 486 guðfræði og önnur rit í safninu. 280 þeirra eru prentuð í Hólaprentsmiðju.

Meðal þess sem er í safninu eru Þorláksbiblía frá 1644, Steinsbiblía frá 1728 og allar prentanir passíusálma Hallgríms Péturssonar fram til 1998.

Fulltrúar atvinnulífsins hafa boðið ríkisstjórninni að hafa samstarf um byggingu menningar, fræða- og ferðamannasetur á Hólum. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í ræðu sinni í dag að hugmyndirnar væru til athugunar hjá ríkisstjórninni og að hann vonaðist til að það næði að finna þeim verðugan farveg áður en langt um líður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×